Hlaupaskútuferð um Hornstrandir


Dagsetningar: 15. - 20. júní 2020

20. - 25. júlí 2020

Seglskúta: Arktika

Leiðsögumaður: Inga Fanney

Skipstjóri: Ólafur Kolbeinn

Ferðin byrjar og endar á Ísafirði


Hornstrandir eru sannkölluð paradís utanvegahlauparans. Þangað liggja engir vegir og eina leiðin til að komast þangað er sjóleiðis. Seglskútan Arktika er eins og færanlegur fjallaskáli, sem flytur okkur frá Ísafirði í Friðlandið á Hornströndum og Jökulfjörðum. Engin byggð er lengur á Hornströndum en þar var áður búið á bæjum og stöku þorp höfðu myndast. Við sjáum ummerki þess en einnig fuglalíf og refaslóðir en refurinn er friðaður á Hornströndum. Hornbjarg og Hælavíkurbjarg eru tvö af stærstu fuglabjörgum landsins og þar verpa margar tegundir sjófugla. Friðlandið er jafnframt heimkynni sela og líkur eru á því að sjá hnúfubaka, háhyrninga og höfrunga á siglingunni yfir Djúpið.

Sums staðar sést móta fyrir stígum á okkar leið en annars staðar eru engir stígar og því leiðirnar sannarlega utan-vega. Við komum til með koma við á Hornbjargi, Hesteyri, Aðalvík, Lónafirði, Hrafnfirði og fleiri áhugaverðum stöðum.

Búast má við að hlaupa 15-30km á dag en vegalengdina er auðveldlega hægt að stilla af eftir því sem hentar hópnum og einstaklingum. Stundum förum við úr einum firði yfir í annan og þarf þá að fara yfir fjallaskörð svo það má búast við hækkun á bilinu 500-1500 metrum á dag.

Allur matur er innifalinn í ferðinni frá því lagt er af stað frá höfninni á Ísafirði á mánudegi þar til komið er aftur til hafnar á laugardegi. Ef fólk kýs að næra sig á gelum og próteindrykkjum er vissara að taka það með að heiman.

Skútan Arktika tekur 12 gesti og verður heimili okkar í 6 daga. Á skútunni eru fjórar gestakáetur, tvær fjögurra manna og tvær tveggja manna. Einnig er setustofa, eldhús, stýrishús og aðstaða fyrir skipstjóra og starfsfólk. Það er því nóg pláss um borð. Við tökum með kayak og SUP (stand up paddle board) sem hægt verður að grípa í þegar við erum ekki að hlaupa. Skipstjóri er Ólafur Kolbeinn Guðmundsson, með áratuga reynslu á sjó.

Inga Fanney hefur sérhæft sig í hlaupaferðamennsku undanfarin 8 ár og leitast eftir að fara hlaupandi um óbyggðir Íslands, Grænlands og Færeyja. Hún hefur starfað sem leiðsögumaður í 17 ár og boðið upp á hlaupaskútuferðir um Hornstrandir síðan 2014. Fleiri myndir frá þeim ferðum og fleirum er að finna á instagram síðunni hennar @ingafann og hér að neðan.

Verð: 199.000 ISK

Innifalið: 6 dagar (5 nætur) á skútu, hlaupaleiðsögn á landi, kayakar og SUP, matur á meðan á ferð stendur.

BÓKA NÚNA

Fyrirspurnir og nánari upplýsingar veitir Inga Fanney í tölvupósti ingafann@gmail.com